top of page
Writer's pictureicficeland

Velsæld og árangur - takk!

Það var þakklát stjórn sem lagðist á koddann í gær, þakklát fyrir félagana, fyrirlesarana og móttökurnar. Markþjálfunardagurinn undir yfirskriftinni „Velsæld og árangur á framsýnum vinnustað" tókst mjög vel í alla staði og viljum við þakka öllum sem lögðu hönd á plóg því hér sannaðist hið margkveðna að margar hendur vinna létt verk, eða má kannski breyta því í verk með mörgum áskorunum?



Félagar okkar frá ICF International þau Tonya, Kaveh og Malcolm voru mjög ánægð með þátttökuna og senda öllum félögum sínum bestu kveðjur sem hér með er komið á framfæri.

Fyrirlesararnir í ár komu inn á mörg málefni sem við markþjálfar stöndum frammi fyrir í tengslum við velsæld og árangur. Þau spurðu spurninga og skoruðu á.


Tonya Echols PCC leiðtogamarkþjálfi sagði að það væri enginn hafinn yfir mennskuna, að vinna þyrfti með það að vera öruggur í hinu óörugga umhverfi og henni var tíðrætt um fjölbreytileika, hvað hann skipti máli og á að skipta máli.


Aldís Arna Tryggvadóttir PCC markþjálfi og Jón Magnús Kristjánsson læknir og markþegi sögðu frá sínum aðferðum og af hverju þau fóru þá leið sem þau fóru. Vísindamaðurinn sem fann að aðferðarfræði markþjálfans virkaði fyrir hann. Þau áttu það bæði sameiginlegt að fylgja hjartanu, skilyrðislaust.


Kaveh Mir MCC stjórnendamarkþjálfi ræddi um geðheilsu, hvernig hún hefur áhrif á árangur og hann ræddi um hugarfarið og innri hvata í tengslum við hana. Hvernig markþjálfun væri hluti af breytingum og hann sagði sína reynslusögu af því hvernig hann fór fyrst í gegnum samstarf með markþjálfa þegar frammistaða hans var undir væntingum á vinnustað.


Kristrún Anna Konráðsdóttir ACC markþjálfi og Davíð Gunnarsson framkvæmdastjóri Dohop sögðu frá því hvernig þeirra tilraunaár með markþjálfun til stuðnings starfsfólki hefði gengið. Þau ræddu um vegferðina og að lykillinn að árangrinum í þeirra umhverfi væri að gefa fólki rými, rými til að stoppa og anda til að lærdómurinn síaðist inn. Þau lifa í umhverfi óvissu og hraða og þar gildir að hreyfa hratt og læra af mistökunum og vera opinská með það.


Haraldur Þorleifsson frumkvöðull var mjög persónulegur í sínum fyrirlestri. Hann lýsti sinni vegferð við áfallið sem hann varð fyrir 11 ára gamall þegar hann missti mömmu sína, hvernig hann vann sig í gegnum sorgina með því að hella sér í tölvuleiki og áttaði sig að lokum á sínum styrkleikum í því að búa til öpp og vefsíður ásamt því hvernig hægt væri að tengja fólk saman með tækninni. Hann segir að við þurfum að mastera manngildi fyrir það starf sem við kjósum okkur, að tilgangurinn þurfi að vera persónulegur svo við gleymum aldrei af hverju við gerum það sem við gerum.


Malcolm Fiellies PCC markþjálfi ræddi um breytingar, hvernig þær hafa áhrif á fólk. Hvernig fyrirtækin breytast, tilgangur þeirra og störf fólks. Hann benti á að breytingar væru það eina sem er stöðugt og kom svo með þá skilgreiningu að manneskjur væru ekki auðlindir heldur fólk (e. Humarns are not resources, they are people). Hann setti upp formúluna: Árangur = möguleikar - raskanir.


Anna María Þorvaldsdóttir ACC markþjálfi og Inga Þórisdóttir NLP master coach ráku lestina á þessari gjöfulu ráðstefnu. Þær sögðu að stjórnendur þyrftu að vera stórhuga, taka pláss því þú þarft að geta leitt sjálfan þig áður en þú getur leitt aðra. Þær fóru yfir SOAR módelið um sjálfsleiðtogafærni, líktu ferðalagi stjórnandans við fjallgöngu og hvaða færni þyrfti í bakpokann í þá göngu. Þær bentu líka á að þú getur ekki stjórnað öðrum ef þú getur ekki stjórnað sjálfum þér. ,,Við erum oft með á hreinu hvað við viljum ekki... en hvað viljum við?” spurðu þær að lokum.


Aldís Arna var ráðstefnustjóri og fær kærar þakkir fyrir frábæra stjórn á viðburðinum. Hún hélt vel utan um ráðstefnuna og hafði greinilega grafið upp margt skemmtilegt um fyrirlesarana sem gaf oft á tíðum meiri dýpt og skilning á þeim.


Pro events héldu utan um viðburðinn og Rigga sá um öll kynningarmál og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.


Kæru markþjálfar, stjórnendur, félagar og gestir. Við þökkum ykkur fyrir komuna og hlökkum til að vera áfram í hringiðunni með ykkur í gera fólk og vinnustaði betri með aðferðarfræði markþjálfunar!

188 views

Related Posts

See All
bottom of page